Hagnýtar upplýsingar

Foreldrar

Nemendur fara út í öllum frímínútum. Ef nemendur þurfa af einhverjum ástæðum að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara, þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en einn dag eftir veikindi.

Gæslu í frímínútum sinna skóla- og frístundaliðar og kennarar ýmist úti eða inni. Ef veður hamlar útivist eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skóla- og frístundaliða.

1.–4. bekkur

Frímínútur eru kl. 9:40–10:10. Næsta hlé er Stundarfriður, kl. 11:40–12:10 hjá 1.–4. bekk.

5.–7. bekkur

Frímínútur eru kl. 9:20–9:40 og svo er Stundarfriður kl. 12:40–13:00.

  1. bekkur

Samkvæmt 40. grein umferðarlaga mega nemendur yngri en 7 ára ekki vera ein á reiðhjóli í umferðinni nema með leiðsögn og undir eftirliti aðila sem náð hefur 15 ára aldri. Vegna þessa mega nemendur í 1. bekk ekki ferðast á reiðhjóli til og frá skóla nema undir eftirliti fullorðins einstaklings.

Nemendur sem koma á hlaupahjóli í skólann bera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum.

  1. – 4. bekkur

Nemendum í þessum bekkjum er heimilt að hjóla í umferðinni samkvæmt umferðarlögum. Ef  foreldrar  kjósa að senda börnin sín í skólann á hjóli þá er það á þeirra ábyrgð. Reiðhjólum skal leggja í hjólagrindur eða við grindverk og læsa. Nemendur sem koma á hlaupahjóli í skólannbera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum.

  1. – 7. bekkur

Nemendum í þessum bekkjum er heimilt að koma á hjólum í skólann. Reiðhjólum skal leggja í hjólagrindur  eða við grindverk og læsa. Reiðhjólin má ekki nota á skólatíma (á einnig við um frímínútur). Nemendum er þó heimilt að nota hjólin til að fara til og frá Sundhöllinni.  Nemendur bera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum.

Þessum bekkjum er einnig heimilt að koma á hjólabretti, hlaupahjóli og línuskautum í skólann. Nemendum í 5. – 7. bekk er heimilt að nota hjólabrettin, hlaupahjólin og línuskautana í frímínútum  á haustin og vorin, eingöngu á brettasvæðinu (hólnum) fyrir framan skólann.  Mikilvægt er að nemendur noti öryggisbúnað, svo sem hlífar og hjálma og eru foreldrar beðnir um að ganga eftir því við sín börn að fara eftir þeim tilmælum sjá reglurgerð um notkun á hlífðarhjálmum við hjólreiðar fyrir börn undir 15 ára aldri: https://www.samgongustofa.is/media/log-og-reglur-i-umferdarmalum/631_1999.pdf.

Nemendur verða að vera orðnir13 ára til að koma á léttu bifhjóli í flokki 1 í skólann en verða að fylgja reglum sem gilda um notkun slíkra hjóla sjá:

https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/Lett-bifhjol-i-flokki-I.2017.3.pdf

Í Engidalsskóla er heimanám almennt bara lestur. Miðað er við að nemendur lesi upphátt heima að minnsta kosti í 15 mínútur fimm daga vikunnar.

Markmið og tilgangur með heimalestri

  • Að nemendur þjálfi og auki lestrarfærni sína.
  • Að nemendur auki lesskilning sinn.
  • Að nemendur auki orðaforða sinn.
  • Að nemendur læri að njóta þess að lesa.

Til að ná góðum árangri í lestri er mikilvægt að barnið lesi upphátt heima alla virka daga (raddlestur). Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti tvisvar sinnum. Slík þjálfun gefur barninu aukna færni í lestri orðmynda, auk þess sem lesturinn verður oftast þjálli þegar sami texti er lesinn aftur. Lesa á í áheyrn fullorðins sem kvittar fyrir áheyrn í þar til gerð kvittanahefti. Áhersla er lögð á að nemendur fái efni við hæfi svo að lesturinn verði sem ánægjulegastur.

Foreldrar eru hvattir til að lesa áfram upphátt fyrir börn sín, jafnvel þó að þau séu sjálf farin að lesa. Flest börn ráða einungis við mjög léttan texta í byrjun en hafa þörf fyrir að vinna með flóknari texta sem fellur betur að þroska þeirra og áhuga. Lestur foreldra og umfjöllun um textann eykur orðaforða barnanna og bætir málþroska, en góður málþroski er einn af grunnþáttum alls náms.

Hlutverk foreldra í heimalestri

  • Vera jákvæð og skapa barninu góðar aðstæður fyrir heimalestur.
  • Sýna barninu stuðning og hvatningu.
  • Aðstoða barnið sitt við að skipuleggja heimalesturinn.
  • Spyrja út úr textanum og ræða ný orð sem barnið er að kynnast.
  • Kenna börnunum að taka sjálf ábyrgð á heimanámi sínu smám saman.

Gott að hafa í huga

Friður og ró

  • Yngri nemendum (og líka mörgum eldri) finnst gott að vera í nálægð við einhvern fullorðinn við námið.
  • Námið hefur forgang.

Ekki of seint á kvöldin

  • Best er að taka frá fastan tíma til að sinna heimanámi.

Æfingin skapar meistarann 

  • Einn tilgangurinn með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur verið farið í, það er að þjálfa betur ákveðin atriði.

Talaðu jákvætt um heimanámið

  • Það er mikilvægt að líta heimanámið jákvæðum augum því jákvætt hugarfar auðveldar flest verk.
  • Forðastu samanburð við systkini eða aðra.
  • Mikilvægt er að virða hvern og einn eins og hann er. Jákvæð hvatning hjálpar en of mikil pressa getur skaðað.

Reynt er að taka vel á móti nýjum nemendum þannig að fyrstu kynni þeirra og foreldranna af skólanum veiti þeim öryggi og vellíðan og þeim finnist þeir velkomnir í skólann. Foreldrar skrá barn sitt í skólann á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar.

Áður en nemandinn byrjar í skólanum boðar umsjónarkennarinn nemanda og foreldra hans á kynningarfund og sýnir þeim um skólann. Undantekning getur verið á ef nemandi þarf að byrja í skólanum nær fyrirvaralaust.

Þegar nýr nemandi kemur inn í bekk er hann kynntur fyrir bekknum áður en hann kemur og umsjónarkennari útnefnir 2–4 leiðsögumenn úr bekknum fyrir nemandann. Reynt er að hafa þá ekki alla af sama kyni. Hlutverk þeirra er að passa upp á að nýi nemandinn sé ekki einn og fái allar upplýsingar sem hann þarf.

Umsjónarkennari kynnir nemandann fyrir öðru starfsfólki, eins og sérgreinakennurum og skóla- og frístundaliðum.

Námsráðgjafi boðar nýja nemandann í viðtalstíma og fylgir þeim nemendum eftir sem þess þurfa.

Ef nemendur eru með ofnæmi fyrir einhverjum matvælum er mikilvægt að upplýsa skólann og Skólamat um það eins og við á.

Morgunmatur

Öllum grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið upp á hafragraut 20 mínútum fyrir fyrstu kennslustund. Grauturinn er borinn fram í matsalnum frá 07:50–08:10.

Hádegismatur

Hádegismatur er hjá 5.–7. bekk frá kl. 11:00 – 11:20 og hjá 1.–4. bekk frá kl. 11:20–11:40 

Hægt er að skrá barn í heitan mat í hádeginu sem Skólamatur sér um. Matseðill fyrir vikuna birtist á vef skólans og Skólamatar.

Í byrjun skólaárs þarf að skrá barn í mataráskrift á vefsíðu Skólamatar. Það er hægt að velja fasta áskrift 5 daga vikunnar, sérstaka daga eða fá stakar máltíðir. Áskriftin framlengist sjálfkrafa um 1 mánuð, nema ef áskrift er sagt upp eða breytt.

Lögð er áhersla á næringu barna, umhverfissjónarmið og matarsóun. Allir matseðlar eru næringarútreiknaðir og farið eftir ráðleggingum embættis Landlæknis.

Þau börn sem velja að vera ekki í mataráskrift verða að koma með hollt og gott nesti til að neyta í hádeginu. Mjög sniðugt er að koma með afganga frá kvöldinu áður, heimilismat, matarmiklar samlokur eða vefjur, egg, grænmeti, ber og ávexti. Mikilvægt er að reyna að hafa nesti úr sem flestum fæðuflokkum. Í matsal nemenda geta nemendur grillað samlokur og hitað mat í örbylgjuofni.

Hressing

Á morgnana er hressing og hægt er að kaupa áskrift af ávöxtum- og grænmeti hjá Skólamat. Þau börn sem ekki velja að vera í ávaxtaáskrift á morgnanna geta haft með sér ávexti, ber, grænmeti, egg, gróft brauð með áleggi eða annars konar kornmeti. Við leggjum til að sykraðar mjólkurvörur komi ekki í skólann heldur séu til spari heima. Við minnum á að skólinn er hnetulaus og því getum við ekki leyft hnetur þó svo þær séu hollar og góðar, né nokkuð sem getur innihaldið snefilefni af hnetum.

Systkinaafsláttur af mataráskrift

Ef þú átt 2 eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.

Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.

Nemendur sem kjósa að vera ekki í mataráskrift geta komið með nesti að heiman og borðað í matsalnum þar sem er aðgangur að örbylgjuofni og samlokugrillum.

Engidalsskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.

Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 3 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.

Námsmat greinist í þrennt, leiðsagnarmat, stöðumat og lokamat (út frá hæfniviðmiðum).

  • Leiðsagnarmat er leiðbeinandi námsmat sem fer fram reglulega yfir allt skólaárið í öllum námsgreinum. Í því felst að kennarar nota ýmsar leiðir til að styðja við og leiðbeina nemendum að ná árangri.
  • Stöðumat fer fram tvisvar sinnum á skólaárinu með viðtali nemanda og foreldra með umsjónarkennara (oftar ef þess þarf). Tilgangur stöðumatsins er að veita mat á stöðu nemenda til þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra, til að hjálpa þeim til að ná frekari árangri í náminu.
  • Lokamat fer fram í lok skólaárs þar sem nemandi fær mat á náminu sínu yfir skólaárið. Meginmarkmið þess er að veita nemanda yfirsýn yfir stöðu sína eftir nám vetrarins og gefa honum umsögn fyrir frammistöðu sína.

Námsmat í hverjum árgangi er útlistað í námskrá fyrir hvern árgang. Þar kemur fram á hverju námsmatið byggist og hvernig það er útfært í hverri grein. Reynt er að upplýsa foreldra sem oftast um framgang námsins hjá barni þeirra.

Birting á námsmati

Birting námsmatsins getur verið breytileg eftir árgöngum en allir nemendur fá einkunnir eða umsagnir í lok anna. Við lok hvers skólaárs er prentað út sérstakt vitnisburðarblað með námsmati vetrarins.

Yfir veturinn er birting á námsmati meðal annars í verkefnabókum og námsmatsmöppum á Mentor, undir námsmati. Verkefnabók er með einkunnir úr könnunum eða kaflaprófum og þar er einnig rúm fyrir umsagnir. Kennarar opna fyrir aðgang nemenda og foreldra jafnóðum og þeir færa inn mat á námi nemenda.

Í námsmatsmöppum má finna námsmatið sem fram fer samkvæmt skipulagi viðkomandi kennara, eins og prófum, verkefnum, sýnishornum af vinnu nemenda, skýrslum og matsblöðum.

Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt barnanna. Skólaliðar leggja sig fram um að koma óskilafatnaði og töskum í réttar hendur.

Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á viðtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.

Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.

Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, skriffæri, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Námsbækur eru einnig ókeypis eins og alltaf hefur verið. Ætlast er til að ritföng verði eftir í skólanum og að nemendur geti unnið heimanám með ritföngum sem eru til á heimilinu.

Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og skriffærum til notkunar heima.

Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.

 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Í Engidalsskóla eru ekki eiginlegar skólareglur en ef nemendur fara yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta.

Í Engidalsskóla viljum við:

  • Ekkert ofbeldi, hvorki líkamlegt né andlegt.
  • Engin barefli né önnur vopn.
  • Engin ávana- eða vímuefni, þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur.
  • Engar alvarlegar ögranir eða hótanir.
  • Engin skemmdarverk.
  • Enga áhættuhegðun.
  • Engan þjófnað.

Í Engidalsskóla fá allir nemendur í 5.— 7. bekk spjaldtölvu til afnota.

Nemendur geyma spjaldtölvurnar í skólanum. Spjaldtölvurnar eru geymdar í sérstökum skáp þar sem þær eru hlaðnar yfir nótt.

Við lok hvers skólaárs skila nemendur spjaldtölvunni til skólans til geymslu yfir sumarið.

Veikindi

Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 555 4433 fyrir 8:30. Ef það er ekki gert er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga á að tilkynna þau fyrir hvern dag.

Leyfi

Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti á [email protected] eða hringja í skólann í síma 555 4433. 

Leyfi fyrir meira en 2 daga þarf að tilkynna sérstaklega á vefsíðu skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur.

Áfallaáætlun

Í áfallaáætlun Engidalsskóla er gerð grein fyrir hlutverki áfallaráðs og lýsingar gefnar á verkferlum sem viðhafðir eru þegar starfsfólk og nemendur þurfa að bregðast við áföllum og hættuástandi, til dæmis í náttúruhamförum.

Rýmingaráætlun Engidalsskóla

Í Engidalsskóla er viðurkennt brunaviðvörunarkerfi, útiljós og neyðarlýsing. Flóttaleiðir eru ein eða fleiri. Í hverri stofu skólans er lýsing á fyrstu viðbrögðum. Þar eru einnig nafnalistar og rautt eða grænt spjald sem segir til um það hvort allir nemendur hafi skilað sér á sitt söfnunarsvæði. Allir kennarar þurfa að sjá til þess að nafnalistar, rautt og grænt spjald ásamt rýmingaráætlun séu í þeim stofum sem þeir kenna í.

Viðbragðsáætlun við inflúensu

Markmið viðbragðsáætlana skóla eru að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð allra skólastofnana sem og starfsmanna þeirra þegar til inflúensufaraldurs kemur. Viðbragðsáætlunin segir fyrir um skipulag og stjórn aðgerða í Engidalsskóla í samræmi við áætlun Almannavarna um viðbrögð við heimsútbreiðslu inflúensu.

Stafrænar öryggismyndavélar eru utanhúss í skólanum og við suma innganga. Markmiðið er að hafa rafræna vöktun á skólabyggingunni og skólalóðinni í öryggisskyni og til varnar því að eigur séu skemmdar eða þeim stolið.

Upptökur eru einungis skoðaðar ef upp koma atvik varðandi eignavörslu eða öryggi einstaklinga, eins og þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Heimild til skoðunar er aðgangsstýrð en myndefni er vistað að hámarki í 90 daga og eytt að þeim tíma loknum.

Vöktunin er útfærð í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Merkingar með viðvörunum um rafræna vöktun eru uppsettar á vöktuðu svæðunum.