Skólinn

Engidalsskóli er fyrir nemendur í Norðurbæ Hafnarfjarðar, norðan Hjallabrautar. Skólanum er skipt í tvö stig, yngsta stig og miðstig. Skólinn er teymiskennsluskóli og er einn bekkur í hverjum árgangi með mismarga kennara. Í skólanum eru í kringum 230 nemendur. 

Börn hafa forgang í þann hverfisskóla þar sem þau eiga lögheimili en hægt er að sækja um skólavist í öðrum skólum. Sjá nánar um innritun í grunnskóla.

Leiðarljós og stefna Engidalsskóla

Leiðarljós skólans eru: ÁbyrgðVirðingVellíðan og er allt starf skólans í anda þeirra.

Í Engidalsskóla er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Við ræktum með nemendum umburðarlyndi, vináttu, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Með því teljum við að lagður sé grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Við viljum veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð og reglusemi sem stuðlar að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.

Frá haustinu 2021 hefur verið unnið með agastefnuna Uppeldi til ábyrgðar í Engidalsskóla. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti, sjálfstjórn og að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Gerður er bekkjarsáttmáli með hverjum árgang þar sem nemendur búa til sáttmála með þeim lífsgildum sem skiptir nemendurna mestu máli og daglegu starfi og farið ítarleg í hlutverk hvers og eins.

Í skólanum er lögð áhersla á vellíðan barna, gleði og leiki, tengsl við náttúru, menningu og atvinnulíf í nánasta umhverfi skólans. Forsenda árangurs í skólastarfi er að nemendum líði vel og farsælt samstarf heimila og skóla þar sem sömu gildi og væntingar ríki á báðum stöðum.