Áherslur

Skólinn

Uppeldi til ábyrgðar

Uppeldisstefnan „Uppeldi til ábyrgðar“ kennir nemendum sjálfsaga, sjálfstjórn og að ýta undir sjálfstraust. Það er í lagi að gera mistök en spurning hvernig við vinnum með það.

Stefnan vinnur með þarfir og hlutverk hvers og eins í skólanum. Í bekkjum og meðal starfsfólks eru gerðir sáttmálar um hvað eigi að leggja áherslu á í samskiptum.

Uppbygging sjálfsaga

Í uppbyggingu sjálfsaga er áherslan á:

  • jákvæð samskipti frekar en reglur
  • ábyrgð frekar en blinda hlýðni
  • virðingu fremur en stjörnugjöf.

Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.

Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Þetta er aðferð í samskiptum og við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðafólk sitt rangindum eða lent upp á kant við það. Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Leitast er við að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.

Spurt er hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná markmiðum okkar í sátt og samlyndi við samferðafólk. Sjá nánar um uppbyggingu sjálfsaga

Skýr mörk

Við í Engidalsskóla erum ekki með eiginlegar skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru síðan boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. 

Í Engidalsskóla viljum við:

  • Ekkert ofbeldi, hvorki líkamlegt né andlegt.
  • Engin barefli né önnur vopn.
  • Engin ávana- eða vímuefni, þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur.
  • Engar alvarlegar ögranir eða hótanir.
  • Engin skemmdarverk.
  • Enga áhættuhegðun.
  • Engan þjófnað.

Heilsueflandi grunnskóli

Engidalsskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli. Lögð er áhersla á heilbrigði og velferð nemenda og starfsfólks og er markmið að allt daglegt starf skólans stuðli að betri líðan og heilsu allra sem þar starfa.

Engidalsskóli varð Heilsueflandi grunnskóli árið 2021. Áhersla hefur verið á að auka hreyfingu nemenda meðal annars með fjölgun íþróttatíma og huga að velferð og vellíðan nemenda meðal annars með sjálfstyrkingasmiðjum. Við leggjum áherslu á nemendalýðræði og tökum tillit til óska nemenda. Við höfum aukið þátttöku nemenda í félagslífi með því að bjóða upp á frístundastarf á skólatíma. Þá höfum við lagt mikla áherslu á hollt og gott nesti, fjallað reglulega um mikilvægi góðs svefns og hugað að heilsu og vellíðan starfsmanna. Við erum meðvituð um að það mun taka nokkur ár að uppfylla alla þætti verkefnisins en teljum okkur á mjög góðri leið.

 

Heilsueflandi grunnskóli:

  • Stuðlar að góðri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks skólans.
  • Bætir námsárangur nemenda.
  • Örvar til þátttöku og ábyrgðar með virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og mannréttindum.
  • Sér til þess að skólaumhverfið sé öruggt og hlúi að nemendum og starfsfólki skólans.
  • Eflir nemendur í námi og félagslífi og til að vera virkir þátttakendur í hvoru tveggja.
  • Tengir saman heilbrigðis- og menntamál.
  • Tekur á heilsu og vellíðan alls starfsfólks skólans.
  • Vinnur með foreldrum og sveitarstjórn.
  • Fléttar heilsu og velferð saman við daglegt skólastarf, námskrá og árangursmat.
  • Setur sér raunhæf markmið sem byggjast á nákvæmum upplýsingum og traustum vísindalegum gögnum.
  • Leitast við að gera æ betur með því að fylgjast sífellt með, meta stöðuna og endurmeta aðgerðaáætlanir.

Handbók heilsueflandi grunnskóla

Grænfáninn

Grænfáninn er viðurkenning eða verðlaun til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt. Verkefnið er hluti af alþjóðlega umhverfismenntarverkefninu Skólar á grænni grein sem rekið er af Landvernd á Íslandi.

Engidalsskóli er skóli á grænni grein og er þátttakandi í verkefni Landverndar og fær þess vegna að flagga Grænfánanum. Með því verkefni eflum við menntun til sjálfbærni og aukum vitund nemenda og starfsfólks um umhverfismál. Skólinn hefur fengið grænfánann 9 sinnum.

Markmið skóla á grænni grein eru að:

  • bæta umhverfi skólans og umgengni inni sem úti
  • minnka úrgang og notkun á vatni og orku
  • efla samfélagskennd innan skólans.
  • auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum, innan sem utan kennslustofu.
  • minnka úrgang og notkun á vatni og orku
  • auka umhverfisvitund í menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan
  • styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
  • veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.

Umhverfisstefna Engidalsskóla

Markmið og framtíðarsýn

  1. Efla umhverfisvitund nemenda og starfsfólks skólans
  2. Draga úr sóun.
  3. Leggja áherslu á að endurvinna og endurnýta.
  4. Stefna að aukinni sjálfbærni.
  5. Auka fræðslu í umhverfismálum og skilning á mikilvægi þess í alþjóðlegum samhengi

Fræðsla og umgengni

  • Nemendur fá fræðslu um umhverfismál og hvað þau geta gert í sínu nærumhverfi.
  • Allir nemendur skólans fara reglulega út á skólalóð, tína rusl og snyrta.
  • Hvatt til útikennslu í öllum árgöngum.
  • Foreldrar eru hvattir til að merkja föt barna sinna. Nemendur fá fræðslu um textíliðnaðinn og mikilvægi þess að passa upp á eigur sínar.
  • Óskilamunir geymdir á einum stað í skólanum. Foreldrar hvattir til að fara yfir þegar þeir heimsækja skólann.

Notkun auðlinda og aðfanga

  • Minnka innkaup, allt starfsfólk hafi í huga að kaupa ekki nema þörf sé á.
  • Gott skipulag á skrifstofu og gagnageymslu, það eykur yfirsýn á hvað er til.
  • Nýtum námsgögn á milli ára.
  • Prentun og plöstun þegar þörf er á.

Endurvinnsla og endurnýting

  • Mikilvægt er að allir flokki rétt.
  • Merkingar séu góðar.
  • Foreldrar sendi börn sín helst ekki með einnota umbúðir í skólann og allt rusl fer aftur heim.
  • Nemendur eru fræddir um hvernig má endurnýta blöð og annan efnivið.
  • Nýta stílabækur milli ára, ekki þarf alltaf nýja bók.

Umhverfisteymi

Umhverfisteymi heldur utan um Grænfánaverkefni skólans, teymisstjóri er Hildur Ýr Jónsdóttir. Teymið starfar náið með umhverfisráði nemenda, sem eru fulltrúar allra bekkja skólans. Umhverfisráð nemenda fær fræðslu um umhverfismál, fer í eftirlitsferðir um skólann til að tryggja að allir flokki ruslið rétt og spari vatn og rafmagn. Umhverfisráðið kemur með hugmyndir að nýjum verkefnum sem snúa að bættu umhverfi og sjá um að miðla til bekkjarfélaga sinna.

Eineltisáætlun

Einelti er ekki liðið í Engidalsskóla. Leitað er allra leiða til að fyrirbyggja eða stöðva og leysa einelti á farsælan hátt. Í skólanum eru skýrar reglur og vinnuferli ef upp kemur einelti. Öflugar forvarnir gegn einelti byrja við upphaf skólagöngu og er viðhaldið til loka skólagöngu nemenda.

Skilgreining á einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin og langvarandi hegðun sem veldur vanlíðan hjá þeim sem verður fyrir henni . Einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun og hótunum af ýmsu tagi sem kemur þolanda illa.

Birtingarmyndir eineltis geta verið fjölmargar, bæði duldar og sýnilegar. Einelti getur verið félagsleg útskúfun þannig að barn sem verður fyrir henni er ekki fullgildur þátttakandi í félagsskap eða leik. Einelti getur einnig komið fram með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki undir einelti.

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Umsjónarkennari er ábyrgur fyrir að leysa og uppræta eineltismál sem upp koma í hans umsjónarbekk. Í forföllum umsjónarkennara getur námsráðgjafi eða stjórnandi hafið vinnslu í málinu án þess að upplýsa foreldri í upphafi könnunar. Mikilvægt er að byrja strax að vinna að máli þegar grunur um einelti vaknar.

Skref 1. Grunur um einelti

Ef vinnsla máls leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra meints þolanda. Á sama tíma eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til lausnar á vandanum eftir eðli hvers máls. Öll málsgögn eru send til nemendaverndarráðs til yfirferðar.

Skref 2. Rökstuddur grunur um einelti

Ef um rökstuddan grun um einelti er að ræða er málinu vísað til nemendaverndarráðs að lokinni könnun á skrefi 1 til frekari úrvinnslu. Nemendaverndarráð setur málið í ferli og skipar tilsjónarmann með umsjónarkennaranum til að vinna áfram að málinu. Tilsjónarmaður máls getur kallað annað starfsfólk til telji hann þörf á því. Mikilvægt er að gott upplýsingaflæði sé á milli þeirra sem að málinu koma.

Tilsjónarmaður og umsjónarkennari vinna samkvæmt aðgerðaráætlun.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Bekkjarsáttmáli

Mikilvægt er að nemendur ásamt umsjónarkennara búi til bekkjarsáttmála í byrjun skólaárs sem er sýnilegur í heimastofu.

Fræðsla um einelti

Umsjónarkennarar fræða nemendur um einelti og afleiðingar þess jafnt og þétt yfir allt skólaárið. Umsjónarkennarar nýta Vinavikuna til þess að efla samskiptin.

Hópefli

Umsjónarkennari leitast við að styrkja bekkjarhópinn sem heild með hópefli. Umsjónarkennari gætir þess að allir nemendur séu hluti af bekknum og enginn skilinn út undan. Ef umsjónarkennari verður var við útilokun eða klíkumyndun leitar hann leiða til þess að uppræta slíkt atferli.

Fylgjast með

Einelti þrífst vegna aðgerðarleysis fjöldans. Þess vegna er mikilvægt að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Kennarar og starfsfólk fylgist ávallt vel með líðan nemenda og breytingum í félagahópi.

Bekkjarfundir

Bekkjarfundir skapa gott tækifæri til að ræða og leysa mál.

Kannanir

Umsjónarkennarar leggja fyrir samskipta-, tengsla- eða eineltiskönnun til að fylgjast með nemendahópnum. Tengslakönnun er gott tæki til þess að sjá hvaða nemendur eru einangraðir félagslega.

Leiðsagnarnám

Hugmyndafræði og aðferðir sem einkenna leiðsagnarnám eru augljósar í menntastefnum víða um heim þótt þær gangi oft undir öðrum heitum, eins og Student-centered learning eða Visible learning. Meginmarkmiðið er að gera nemendum kleift að taka aukna ábyrgð á eigin námi.

Hugmyndin byggir á breyttum viðhorfum í samskiptum sérfræðinga og notenda á síðustu áratugum. Augljós dæmi um slíkar breytingar eru samskipti heilbrigðisþjónustunnar og borgara þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á að vekja almenning til vitundar og ábyrgðar á eigin heilsu, meðal annars með því að stunda heilbrigðan lífsstíl. Yfirskrift baráttu öryrkja „Ekkert um okkur án okkar“ er lýsandi fyrir þessa hugmyndafræði en margir hópar hafa gert þessi einkunnarorð að sínum. Orðin undirstrika áhersluna á ákvarðanatöku og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem um ræðir. Aukin hlutdeild notenda gengur almennt undir heitinu valdefling eða efling (e. Empowerment) en upphaf hugmyndarinnar er rakið til baráttunnar um borgararétt í Bandaríkjunum í lok sjöunda áratugarins, baráttunnar við fátækt og kynþáttamisrétti og til kvenfrelsishreyfingarinnar. Oft er vísað í skrif Paulo Freire (1974) þar sem fjallað er um eflingu en hann benti á að ekki væri hægt að leysa vandamál fyrir fólk, einungis með fólki.

Það má teljast eðlileg þróun að hugmyndafræðin um valdeflingu hafi ratað inn í skólana gegnum aðalnámskrá grunnskóla og mörg dæmi má sjá um það í skólunum okkar, til dæmis í áherslu á nemendalýðræði, vali í námsgreinum, nemendastýrðum foreldraviðtölum og leiðsagnarmati. Þegar um börn er að ræða liggur hin endanlega ábyrgð í skólanum þó alltaf hjá starfsfólkinu.

Hugmyndafræði og nálgun leiðsagnarnáms byggir á niðurstöðum fjölda menntarannsókna sem hafa verið gerðar víða um heim á síðustu áratugum. Starfandi kennarar, meðal annar undir haldleiðslu Shirley Clarke, hafa þróað kennsluaðferðir sem byggja á niðurstöðum þessara rannsókna en þannig hefur Clarke byggt brú frá fræðaheiminum yfir í skólana. Þegar rétt er að því staðið sýna aðferðirnar ótvíræð áhrif á námsmenningu skólanna, ekki síst sjálfsmynd nemenda, aukna hæfni til samvinnu og síðast en ekki síst á námsárangur.

Hugmyndafræði leiðsagnarnáms er hluti af ríkjandi viðhorfi til hlutverka notenda og sérfræðinga. Í þessu tilviki eru notendurnir nemendur og verkefni okkar sérfræðinganna (kennaranna) er að finna leiðir til að gera nemendum kleift að taka aukna ábyrgð á námi sínu. Leiðsagnarnámið býr yfir mörgum leiðum til að ná þessum markmiðum en lykillinn að árangri er þó umfram allt viðhorf og hugmyndir kennara til nemenda og til eigin fagmennsku.